Vefverkefni Kassarit

Kassarit (sjá mynd) er þægileg og mikið notuð aðferð til að kanna gögn. Kassrit er notað til að skoða staðsetningu og dreifingu samfelldrar breytu. Kassarit eru ekki síst nytsamleg til að bera saman dreifingu tveggja eða fleiri úrtakshópa. Þau sýna vel skekkju í dreifingu og sýna útgildi greinilega. Það er grundvöllur að mörgum tilgátum að gögnin séu nokkurn veginn normaldreifð og kassarit getur hjálpað til við að álykta hvort svo sé. Það er hins vegar galli við kassarit að þau sýna ekki eyður eða toppa í dreifingu og það væri frekar reynandi að sjá slíkt á stöplariti, þótt þau sýni það ekki heldur nógu vel..

Þegar kassarit er teiknað er dreifingunni skipt upp í fjóra jafna hluta auk þess sem miðja hennar er fundin. Lengd kassans í kassritinu innifelur þann helming dreifingarinnar sem er næst miðju en lægsti og hæsti fjórðungurinn eru utan við kassann. Breidd kassansns táknar ekkert sérstakt. Lína er dregin þvert yfir kassann við miðju dreifingarinnar. Út frá sitt hvorum enda kassans ganga línur sem eru kallaðar skegg (whiskers). Skeggin geta náð allt að einni og hálfri kassalengd frá brúnum kassans. Í SPSS og fleiri forritum eru mæligildi sem eru utan við skeggið en innan við þrjár kassalengdir frá brún kassans kölluð útgildi og merkt með hring. Mæligildi sem eru meira en þrjár kassalengdir frá brún kassans teljast enn meiri útgildi og eru merkt með stjörnu.

Þótt kassaritin séu einföld að uppbyggingu eru mjög miklar upplýsingar um lögun og einsleitni dreifingarinnar fólgnar í þeim. Lengd kassans gefur hugmynd um það hversu mikið sá helmingur mæligildanna sem er næst miðju dreifist. Línan sem liggur þvert yfir kassann og staðsetning kassans milli skeggjanna segja líka til um hvort dreifing sé jákvætt eða neikvætt skekkt. Skeggin sýna breidd og lögun í hölum dreifingarinnar. Ef dreifingin er samhverf geta löng skegg gefið vísbendingu um mörg útgildi en stutt skegg vísbendingu um stutta hala dreifingarinnar.