Helga María Guðmundsdóttir
Tourette heilkenni


Hvað er Tourette heilkenni?

Tourette heilkenni er sjúkdómur í miðtaugakerfi. Franskur taugalæknir, George Gilles de la Tourette, varð fyrstur til að lýsa einkennum sjúkdómsins árið 1885 og er sjúkdómurinn því kenndur við hann, en það er ekki fyrr en á síðasta áratugi að farið er að greina hann að einhverju marki.

Tourette heilkenni var lengi álitinn vera geðsjúkdómur þar sem taugaspenna getur auðveldlega ýtt undir einkennin. Erlendar rannsóknir benda til að fimm af hverjum þúsund hafi Tourette heilkenni.

Sýnileg einkenni sjúkdómsins eru ýmiss konar ósjálfráðar hreyfingar og ósjálfráð hljóð

Einkennin koma í ljós á aldrinum 2-15 ára, oftast þó í kringum 7 ára aldur. Sjúkdómurinn er þrisvar sinnum algengari hjá drengjum en stúlkum.

Helstu einkenni

Sjúkdómurinn er talinn arfgengur en í ljós hefur komið að menn geta verið arfberar án þess að hafa einkenni. Erfðamynstur er þó enn óljóst og orsök óþekkt en vitað er að sjúkdómurinn stafar hvorki af taugaspennu né óheppilegum uppeldisaðstæðum.

Tourette heilkenni hefur ekki áhrif á greind eða hugarstarfsemi. Vandamál þau er fylgja sjúkdómnum eru aðallega félagslegs eðlis, vandræði í skóla og í þjóðfélaginu.

Algengasta meðferð við Tourette heilkenni er lyfjagjöf. Oft eru einkenni þó það væg að þau eru ekki meðhöndluð en lyfjagjöf er beitt þegar kækir eru miklir. Lyfjagjöf getur dregið úr einkennum en ekki læknað, en lyfin geta einnig haft ákveðnar aukaverkanir.

Lækning er ekki til en oft eldast einkennin af, minnka til muna, breytast eða verða viðráðanlegri.

©1997