VefverkefniGerð og túlkun leifarrits í aðfallsgreiningu

Í allri tölfræði hefur myndræn framsetning mikið vægi, þannig getur gott myndrit sýnt eiginleika gagnanna á einfaldan hátt sem lesandinn er fljótur að meðtaka. Með myndriti er því oft hægt að sýna mælitölur án vandræða sem annars hefði tekið tíma að útskýra í bundnu máli. Þannig má með hjálp myndrita koma á framfæri meiri upplýsingum án þess að flækja textann. Eiginleikar eins og tíðni, lögun dreifingar, skekkja og fráviksgildi í aðfallsgreiningu sjást vel á góðu myndriti.

Mikilvægt er að velja myndrit við hæfi fyrir þau gögn sem verið er að vinna með í hvert skipti. Hér er ætlunin að fjalla um myndrit sem sýna lögun dreifingar og taka fyrir gerð og túlkun leifarrits í aðfallsgreiningu. Helstu ritin sem hafa verið notuð í þessum tilgangi eru stöplarit og normalrit.

Leifarrit geta verið mikilvæg til að kanna forsendur aðfallsgreiningar. Ein af forsendum aðfallsgreiningar er normaldreifing villunnar í þýði, það er villan þarf að vera normaldreifð í þýði til þess að rétt sé að nota aðfallsgreiningu á gögnin. Hér er þó rétt að taka það fram að aðfallsgreining er traust gagnvart frávikum frá normaldreifingu og því þarf að taka mið af því þegar gögnin eru greind.Hægt er að kanna hvort dreifing villunnar sé normallaga á einföldu stöplariti, en því fylgja hinsvegar ákveðnir vankantar. Betra er að nota normalrit eða kassarit þar sem það eru traustari rit. Þegar normalrit er skoðað notum við leifina líkt og í öðrum ritum sem kanna villuna. Leifin er mat okkar á villuni, það er sá eiginleiki í úrtaki sem samsvarar villunni í þýði.

Vert er að skoða hvort frávillingar séu í gögnunum, slíkt er hægt að sjá bæði á normalriti og kassariti en stöplarit eru ekki sérlega næm á þá. Frávillingar eru frávik frá normaldreifingu sem úrvinnslan er ótraust gagnvart og því þarf að skoða þá og meta hvort það mikið sé af frávillingum að þeir hafi teljandi áhrif á úrvinnsluna.