VefverkefniGagnakönnun

Gagnakönnun

Flestar tölfræðiaðferðir gera ráð fyrir ákveðnum forsendum. Til þess að kanna hvort þessar forsendur eru til staðar er gagnakönnun ákjósanlegur kostur. Grundvallarhugmynd gagnakönnunar er að því meira sem vitað er um gögnin, því betur gengur að nota þau til að þróa, prófa og betrumbæta kenningar. Þannig er til dæmis hægt að sjá hvað gögnin segja til um tengsl breyta. Í grundvallaratriðum gengur gagnakönnun út á það að hrágögn sem hefur verið safnað saman við mælingar eru skoðuð vandlega áður en tölfræðiaðferð er valin. Samkvæmt gagnakönnunarsjónarmiðinu er alls ekki nóg að skoða mæligildi gagnanna (eins og til dæmis meðaltal og staðalfrávik), heldur er myndræn framsetning þeirra nauðsynleg. Með myndritum er því hægt að skoða eiginleika gagnanna sem auðveldar ályktun um það hvort forsendur tölfræðiaðferðinnar sem velja á séu til staðar.

Gagnakönnun leitar því eftir að hámarka það sem hægt er að vita um gögnin og því þarf að fylgja eftir bæði með tortryggni og víðsýni. Það þarf að vera tortryggni gagnvart mælitölum sem draga saman gögnin þar sem þær geta leynt eða jafnvel mistúlkað það sem getur verið mikilvægast í gögnunum. Einnig þarf að vera ákveðin víðsýni þar sem búast má við óvæntum mynstrum í gögnunum, því þessi mynstur geta skipt mestu máli varðandi hvaða tölfræðiaðferð skal nota. Oft vill brenna við að of mikil áhersla er lögð á mæligildin sjálf.

Gagnakönnun þýðir í raun að brjóta upp gögnin í viðeigandi hluta. Það sem skiptir mestu máli varðandi gagnakönnun er sú áhersla sem lögð er á myndrit. Samkvæmt gagnakönnunarsjónarmiðinu er alls ekki nóg að leggja áherslu á mæligildi gagnanna heldur skiptir myndræn framsetning gagnanna ennþá meira máli. Með myndrænni framsetningu á gögnunum og vali á réttu myndriti er hægt að sjá eiginleika gagnanna sem ekki fæst með mælitölum einum og sér. Þetta gefur rannsóknarmanninum færi á þeirri tortryggni og víðsýni sem gagnakönnun krefst.