Eta og skýrð dreifni mælitölur á tengsl breyta

Þegar verið er að skoða tengsl milli tveggja breyta eru aðallega þrjár spurningar sem koma upp. Í fyrsta lagi hvort tengsl séu til staðar, í öðru lagi hversu sterk þau eru og í þriðja lagi hver áhrif einnar breytu eru á aðra.

Ýmsar mælitölur eru til sem meta tengsl og svara þessum þremur grundvallarspurningum. Á meðal þeirra eru Pearsons r, raðfylgni (Spearmans Rs), fí, tá, lambda, aðfallfsgreining, dreifigreining og ómega. Mismunandi er hvaða mælitölur eru notaðar á tengsl breyta eftir því hvers eðlis breyturnar eru (megindlegar, eigindslegar, rofnar eða samfelldar) og hvaða spurningu verið er að svara.

Það er auðsjáanlega mjög erfitt að taka saman áhrif eða styrk tengsla saman í eina tölu. Mjög gott er að nota einnig viðeigandi myndrit til að sýna styrk tengsla eða stærð áhrifa. Þau myndrit sem henta vil til að sýna þau tengsl breyta sem eta metur eru línurit og punktarit.

Línurit getur hentað vel til að sýna meðaltöl fylgibreytu fyrir ólíka hópa. Á slíku riti sést vel ef munur er á meðaltölum hópa.

Einnig er hægt að setja upp punktarit þar sem öll gildi fylgibreytu sjást í kringum meðaltal þess hóps frumbreytu sem það tilheyrir. Á slíkum punktritum sést vel hverning dreifing fylgibreytu er innan hvers hóps frumbreytu.