Pearson kí-kvaðrat Forsendur Pearsons kí-kvaðrats

Segja má að helstu forsendur Pearson kí-kvaðrats felist í þrenns konar skilyrðum sem þarf að uppfylla í hvert sinn sem marktektarprófið er reiknað.

Í fyrsta lagi verður hver athugun að vera óháð hinum á þá vegu að ekki er hægt að finna út gildi eins þátttakanda út frá frammistöðu annars. Til dæmis: Það hvort einn þátttakandi veiti aðstoð þegar fönguleg kona missir blaðabunka á ekki að tengjast því hvort hún fái hjálp frá öðrum við síðara tækifæri. Vegna þessa er óheimilt að prófa sama þátttakandann oftar en einu sinni.

Í öðru lagi þarf úrtakið að vera nokkuð stórt svo væntigildin verði ekki mjög lág. Algengt viðmið (sem þó er ekki alheilagt) er að ekkert væntigildi sé lægra en fimm, að því gefnu að summa raða og dálka séu ekki mjög skekktar. Þó er varasamt að reikna Pearson kíkvaðrat í töflu með mjög lágum væntigildum vegna þess hve það dregur úr afköstum prófsins. Dreifing nálgast að öllu jöfnu normaldreifingu eftir því sem fjöldi athuganna eykst og að því gefnu að breytan sé normaldreifð í þýði.

Í þriðja lagi er mikilvægt að gögnin séu tvíhliða. Á efri töflunni hér að neðan er skáldað dæmi um tvíhliða krosstöflu. Bæði sést þegar atvikið á sér stað (þátttakandi veitir aðstoð) og þegar atvikið á sér ekki stað (þátttakandi veitir ekki aðstoð). Neðri taflan hér að neðan gefur engar upplýsingar um þetta og því myndi kí-kvaðrat próf á henni leiða til rangrar niðurstöðu.

Hjálparhegðun: Rétt tafla

Karlar Konur
Hjálpar 12 8
Hjálpar ekki 8 12

Hjálparhegðun: Röng tafla

Karlar Konur
Raungildi 12 8
Væntigildi 10 10