Helga Tryggvadóttir
Lestregða í framhaldsskólum


Hvað er lestregða ?

Góð skilgreining segir okkur hvað fyrirbærið felur í sér. Skilgreiningar á lestregðu gera þetta ekki heldur segja þær okkur hvað lestregða er ekki. Skilgreiningarnar eru fjölmargar og hafa mörg hugtök verið notuð til að lýsa fyrirbærinu. Skilgreiningar á lestregðu og námserfiðleikum eru óljósar og skarast og getur sami einstaklingurinn þess vegna fallið í fleiri en einn flokk. Oft er matsatriði hvað fellur í hvaða flokk. Þetta hefur leitt af sér skort á samræmi í rannsóknum, greiningu og úrræðum Eitt birtingarform getur átt sér mismunandi orsakir og sama orsök getur leitt af sér ólík birtingarform. Vegna þess að misjafnt er hvað rannsakendur miða við eru tíðnitölur mjög á reiki. Sumir vilja meina að tíðni í grunnskólum sé frá 7% til 10%. Reikna má með að algengi lestregðu sé lægri í framhaldsskólum þar sem margir af þessum nemendum heltast úr lestinni og skila sér ekki úr grunnskólunum yfir í framhaldsskólana. Rannsóknir á orsökum lestregðu hafa beinst að heilastarfsemi og öðrum líffræðilegum þáttum. Einnig hafa verið skoðuð áhrif erfða og umhverfis, en margt bendir til þess að lestregða geti legið í ættum. Orsakir lestregðu eru líklegast truflanir í heilastarfsemi sem leiða til vandamála á afmörkuðum sviðum. Í einhverjum tilfellum gæti verið um skemmd í heila að ræða vegna áfalls, en í flestum tilfellum er þó talið að vandann megi rekja til afbrigðilegrar heilastarfsemi þar sem annað hvort er um skerta starfsemi er að ræða á einhverju ákveðnu svæði eða of mikla starfsemi. Þrátt fyrir yfirlýsingar um skilgreiningarvanda lestregðu verður hér gerð tilraun til að greina frá lestregðu. Henni má lýsa sem erfiðleikum í úrvinnslu áreita sem leiðir af sér litla lestrarfærni, sem ekki er hægt að rekja til lítilla námshæfileika eða annarra þekktra orsaka. Lestregir eiga erfitt með að greina milli ólíkra hljóða, muna hljóð bókstafa, greina orð niður í hljóð eða tengja hljóð saman í orð

©1996