Helga Tryggvadóttir
Lestregða í framhaldsskólum


Leit að lestregum í framhaldsskólum

Tvær meginleiðir eru farnar til þess að finna lestrega í framhaldsskólum. Annars vegar eru fengnar upplýsingar um nemendur við upphaf náms og hins vegar eru notuð próf til að finna þá sem líklegir eru til lestregðu. Til þess fyrra má telja samstarf við grunnskóla þar sem upplýsingar eru fengnar um þá nemendur sem eiga við lestregðu og aðra námserfiðleika að stríða. Einnig er farin sú leið að skoða einkunnir úr grunnskóla og ræða við þá sem hafa lágar einkunnir. Samráð er stundum haft við foreldra til þess að fá upplýsingar um nemendur, bæði að frumkvæði skólanna og foreldra. Sumir skólar vilja að tekið sé fram á umsókn, eða að greinargerð fylgi, ef um erfiðleika er að ræða. Oft hafa nemendur sjálfir samband við starfsmenn skólans, námsráðgjafa eða aðra, og láta vita af vanda sínum eftir að námið hefst. Kennarar hafa einnig samband við þá sem hafa með málefni lestregra að gera innan skólans ef þá grunar að um vanda sé að ræða. Í auknu mæli er farið að leggja próf fyrir nemendur við upphaf náms til þess að finna þá nemendur sem eiga við vanda að stríða og þurfa á aðstoð að halda. Misjafnt er hvaða leiðir skólarnir fara og er ýmist prófaður lestur, lesskilningur og stafsetning. Sumir skólar leggja próf fyrir þá nemendur sem grunur liggur á að séu lestregir, hjá öðrum er öllum nemendum frjálst að mæta í prófun. Aðrir skólar eru með skimun í upphafi náms, þ.e. allir nýnemar taka próf, og á grundvelli útkomu eru þeir fundnir sem líklegir eru til að eiga við erfiðleika að stríða. Þeir eru þá oft prófaðir nánar og ef ástæða þykir til er þeim vísað til Lestrarmiðstöðvar KHÍ eða til taugasálfræðings.

©1996