Helga Tryggvadóttir
Lestregða í framhaldsskólum


Gagnrýni á leit að lestregum í framhaldsskólum

Aðferðirnar sem skólarnir nota til þess að finna þá lestregu eru jafnmargar og skólarnir eru margir. Mögulegt er að það sem ráði aðferðinni byggist á þekkingu og viðhorfum starfsmanna skólans, en ekki endilega á fræðilegum grunni. Oft eru það íslenskukennarar sem axla þá ábyrgð að leggja prófin fyrir og vinna úr þeim og spurning er hvort menntun þeirra og kunnátta er viðeigandi og nægjanleg fyrir þetta mikilvæga verkefni. Þar sem birtingarform lestregðu er einstaklingabundið er ekki þar með sagt að prófin nái til allra þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Vandinn við að beita skimun (þ.e. nota próf sem lagt er fyrir alla til þess að finna ákveðinn hóp, í þessu tilfelli lestrega) er hvar á að draga mörkin. Hverjir falla inn í hópinn og hverjir ekki? Þegar prófun er beitt til að flokka lestrega verður að nota áreiðanleg og réttmæt mælitæki. Áreiðanleiki felur í sér hversu námkvæm prófin eru, þannig að sá sem telst lestregur er það á öllum mælingum undir öllum kringumstæðum og á öllum tímum. Réttmæti vísar í hvað það er sem prófið mælir og hversu vel það gerir það. Skýrt verður að vera hverjum er verið að leita að. Eru það hinir lestregu eða þeir sem eiga erfitt með að lesa af öðrum orsökum? Ekki er nóg að setja einhverja línu og skilgreina alla sem falla undir hana sem lestrega. Hætta er á að þeir sem eiga erfitt með að lesa flokkist með þeim lestregu og öfugt, að þeir sem ættu að flokkast með lestregum geri það ekki. Skimun getur aldrei orðið greining á vandanum, heldur einungis aðferð við að finna áhættuhóp. Auk þeirra lestregu eru eflaust í þessum áhættuhóp nemendur sem þurfa aðstoð með lestur, lesskilning og stafsetningu, en þeir þurfa annars konar aðstoð. Þess vegna er grundvallar atriði að eftir skimun komi til fagaðilar sem eru þjálfaðir í að greina lestregðu. Tilgangurinn með skimun er enginn ef ekki kemur til nánari greining á vandanum, þeir sem veita þá þjónustu eru taugasálfræðingar og Lestrarmiðstöð KHÍ.

©1996