Anna G. Hugadóttir
Heyrnarskerðing


Lög og reglugerðir

Í fyrsta kafla og fyrstu grein laga um málefni fatlaðra segir svo um markmið laganna: ,,Markmið þessara laga er að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Við framkvæmd á markmiðum laganna skal tryggja heildarsamtökum fatlaðra og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðra". Í næstu grein eru svo taldir upp þeir hópar sem þessi lög ná til og þar á meðal eru heyrnarskertir. Lagalegur réttur heyrnarskertra sem fatlaðra virðist samkvæmt þessu vel tryggður.

Öðru máli gegnir ef litið er á heyrnarlausa sem málfarslegan minnihlutahóp. Engin lög eru ennþá til hér á landi sem viðurkenna formlega rétt þeirra til að hafa táknmál að móðurmáli. Norðurlandaþjóðir hafa sett ákvæði í aðalnámskrá um táknmál og rétt heyrnarlausra barna til kennslu í táknmáli sem fyrsta máli og þjóðtungu sem öðru máli.

Kennsla heyrnarlausra barna fellur hér á landi undir lög um leikskóla og grunnskóla. Engin sérákvæði í lögunum taka þó sérstaklega til þeirra, heldur er litið svo á að almenn ákvæði um þjónustu við fatlaða í skólum eigi við heyrnarskerta.

Í leikskólalögum, grein 14, er kveðið á um að börn, sem þurfi sérstaka aðstoð, eigi rétt á henni innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga. Þetta er ekki nægilegt fyrir heyrnarlaus börn sem þurfa fyrst og fremst leikskólaaðstæður þar sem táknmál er talað öllum stundum til að örva málþroska þeirra. Ekki er unnt að koma á slíkum aðstæðum í leikskóla þar sem heyrandi börn eru í meirihluta.

©1996

Til baka í frumskjal