Anna G. Hugadóttir
Heyrnarskerðing


Hagsmunasamtök

Félag heyrnarlausra var stofnað 11. febrúar 1960. Tilgangur félagsins er að stuðla að auknum félagsskap þeirra, sem mállitlir eða mállausir eru vegna heyrnarleysis og vinna að hagsmunamálum þeirra. Þetta er m.a gert með starfi ýmissa tómstundaklúbba og útgáfu Tímarits heyrnarlausra. Kirkja heyrnarlausra var einnig stofnuð fyrir atbeina félagsins.

Árið 1964 samþykkti Alþingi breytingar á umferðarlögum, að tilhlutan félagsins og fleiri aðila, sem heimiluðu heyrnarlausum að aka bíl.

Tímamót urðu í starfsemi félagsins þegar framkvæmdanefnd var stofnuð árið 1975 í samvinnu við Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra. Verkefni nefndarinnar var m.a.að afla fjár til að efla erlend samskipti, halda námskeið og gefa út táknmálsorðabók, sem fyrst kom út árið 1976.

Félagið hefur tekið nokkurn þátt í erlendu samstarfi. Það hefur beitt sér fyrir endurbótum í tryggingamálum og þjónustu við heyrnarlausa, t.d. notkun á textasímum. Einnig vann félagið að því í samvinnu við Vesturhlíðarskóla að koma á námskeiðum í táknmáli fyrir aðstandendur heyrnarlausra barna og aðra. Þá barðist félagið fyrir því að fréttaágripi á táknmáli var komið á í sjónvarpi og var fyrsta útsendingin 1. nóv. 1980.

Félag heyrnarlausra, Laugavegi 26, 101 Reykjavík. Sími: 5613560, símbréf: 5513567, textasími: 5613259, farsími: 8963445.

Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra var stofnað árið 1966 í kjölfar mikils faraldurs rauðra hunda sem gekk yfir landið 1964. Markmið félagsins er að halda uppi fræðslustarfsemi meðal foreldra heyrnardaufra og auka samstarf þeirra á meðal í þágu hinna heyrnardaufu. Ennfremur að styðja og styrkja starfsemi Vesturhlíðarskólans, aðstoða heyrnardaufa til framhaldsmenntunar og við val á lífsstarfi og að styrkja og greiða fyrir heyrnardaufu fólki á hvern þann hátt annan sem unnt er.

Foreldrafélagið hefur lagt áherslu á samvinnu við erlend foreldrafélög. Það hefur verið aðili að Evrópusamtökum foreldrafélaga heyrnarlausra (FEPEDA) frá stofnun þeirra árið 1991 og átt fulltrúa í stjórn

samtakanna. Félagið á fulltrúa í nefndum sem sjá um málefni heyrnarlausra og hefur beitt sér fyrir fræðslu og útgáfustarfsemi. Auk nokkurra bóka sem félagið hefur gefið út hefur það styrkt útgáfu táknmálsorðabóka, svo og gefið út ýmis konar fréttabréf og kynningarbæklinga.

Það er mikils virði fyrir foreldra sem eignast heyrnarskert barn að komast í samband við foreldra sem hafa öðlast reynslu í uppeldi heyrnarskertra barna. Þegar ný tilfelli af heyrnarleysi greinast berast boð frá lækni til Samskiptamiðstöðvarinnar og/eða Vesturhlíðarskólans. Í framhaldi af því er haft samband við Foreldrafélagið, sem síðan hefur svo samband við viðkomandi foreldra og bíður fram liðveislu, örvun og vináttu. Það er mikið áfall að eignast heyrnarskert barn og því mikilvægt, að foreldrar hiki ekki við að leita sér aðstoðar. Foreldrafélagið er ávallt reiðubúið að rétta fram hjálparhönd til allra sem til þess leita.

Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra, Laugavegi 26, 101 Reykjavík. Sími: 5613560, símbréf: 5513567.

Félagið Heyrnarhjálp var stofnað 1937. Tilgangur þess skýrist af nafninu, en fyrst og fremst var hann að útvega heyrnartæki og leiðbeina um meðferð þeirra og notkun. Félagið hóf snemma ferðir um landið í þessum tilgangi og eftir 1968 sá það um reglulegar ferðir. Þegar Heyrnar- og talmeinastöð Íslands var stofnuð tók hún yfir hluta af starfseminni og þá breyttist hlutverk félagsins. Því er nú ætlað tvenns konar hlutverk:

Að vera félag heyrnarskertra og vinna að réttindamálum þeirra. (Þegar hér er rætt um heyrnarskerta er átt við þá sem einhvern tíma hafa haft nægilega heyrn til að tileinka sér venjulegt talmál, en hafa síðan misst heyrn að meira eða minna leyti.)

Að útvega heyrnartæki sem mega koma heyrnarlausum og heyrnarskertum að gagni.

Félagið tekur þátt í starfi Samstarfsnefndar heyrnarskertra á Norðurlöndum. Félagið hefur á boðstólum ýmis hjálpartæki fyrir heyrnarskerta og leiðbeinir um notkun þeirra

Félagið Heyrnarhjálp, Snorrabraut 29 105 Reykjavík. Sími: 5515895. Skrifstofutími: þriðjudag - föstudag kl 11:00 - 14:00.

Til baka í frumskjal

©1996