Anna Kristín Halldórsdóttir
Hringsjá


Kennslugreinar

Starfið hjá Hringsjá er hugsað sem endurhæfing fyrir fólk sem vegna slysa, sjúkdóma eða annarra áfalla þarf að endurmeta stöðu sína bæði á atvinnumarkaðinum og í lífinu sjálfu.

Námið tekur alls þrjár annir og er kennt fjóra til sex tíma á dag, fimm daga vikunnar. Markmiðið með náminu er að hver einstaklingur finni frekara nám eða starf við hæfi og verði færari við að takast á við það sem eftir kemur.

Náminu er skipt í þrjá hluta:

  1. Inntökuhluti: Þar fer fram stöðumat, áætlunargerð og byggður grunnur fyrir hvern einstakling sem hefur nám í starfsþjálfuninni.
  2. Meginhluti: Þar er grunnurinn notaður en síðan viðbót eða sérhæft efni og að lokum val.
  3. Útskriftarhluti: Þessi síðasti hluti skiptist í tvennt, annars vegar þeir sem stefna að frekara námi og hinsvegar þeir sem stefna að vinnu.

Aðalkennslufögin eru: Íslenska, þar sem t.d. er æfður lestur, málfræði, stafsetning og tjáning bæði munnleg og skrifleg. Enska og er þar lögð sérstök áhersla á viðskiptaensku. Stærðfræði, þar er almennur grunnur en síðan mest áhersla á verslunarreikning og tölfræði. Bókfærsla, meðal annars tölvubókhald. Samfélagsfræði, meðal annars umfjöllun um íslenska samfélagið og réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Tölvufræði, þar er kennd notkun ýmissa forrita með megin áherslu á ritvinnslu og töflureikni, en einnig póstforrit og alnetið. Námstækni, en þar er auk kennslu í hefðbundinni námstækni farið í gegnum gerð starfsumsókna, viðtalstækni og fleira sem að gagni kemur í atvinnuleit.

Boðið er upp á náms og starfsráðgjöf, starfskynningu og stuðning við atvinnuleit. Einnig er boðið upp á verklega starfsþjálfun en undir hana flokkast:

  1. Kaffistofurekstur, sem er skylda í öðrum hluta.
  2. Móttaka og símvarsla sem er val í þriðja hluta.
  3. Starfsþjálfun í fyrirtækjum sem einnig er val í þriðja hluta.

Nemendur reka kaffistofu skólans í sameiningu. Þeir sjá um að panta inn vörur, afgreiða og greiða þá reikninga sem úti standa. Móttaka og símvarsla er unnið hjá Hringsjá. Nemendur sjá um skiptiborð skólans og móttöku þeirra er koma inn rétt eins og þeir væru út á vinnumarkaðinum. Að síðustu er boðið upp á starfsþjálfun í fyrirtækjum út í bæ fyrir þá er þess óska og er misjafnt hversu langan tíma sú þjálfun tekur. Fer það algjörlega eftir fyrirtækinu sem á hlut hverju sinni.

Stuðningur við atvinnuleit fer meðal annars fram í formi Vinnuklúbbs. Nemendur setja upp starfsskýrslur og æfa hvernig þeir gætu komið fram í starfsviðtölum og fara yfir hvaða spurningar gæti komið upp í viðtölunum. Ráðgjafi Hringsjár tekur æfingaviðtal upp á myndband og fer síðan yfir myndbandið með nemendum og aðgætir hvað gæti farið betur og hvað er vel gert.

©1997