Verkefni í Ýmsum námsörðugleikum


Alma Oddgeirsdóttir
Flogaveiki

Flogaveiki er samsafn margvíslegra einkenna sem stafa af tímabundnum , kröftugum og óeðlilegum truflunum á rafboðum í heila. Þessar skammvinnu truflanir tákna það að tímabundin röskun verður á starfsemi taugafruma í heila. Röskunin getur bæði verið á litlu afmörkuðu svæði í heilanum eða flætt um hann allan. Við þessa röskun á starfsemi taugafrumanna verða líkamshreyfingar fólks oft óvenjulegar, meðvitund getur skarast og hegðun breyst. Þessar breytingar eru það sem í venjulegu tali eru kallaðar flog. Einkennin geta birst sem störur, kippir og/eða stór flogaköst þar sem fólk dettur niður og fær krampa.

Gera verður skýran greinarmun á flogum og flogaveiki. Talað er um flogaveiki þegar fyrir hendi er tilhneiging til floga og hafi viðkomandi fengið fleira en eitt flogakast er talað um flogaveiki. Ekki er talað um flogaveiki þótt fólk fái einn krampa eða eitt flog og hugtakið flogaveiki er heldur ekki notað yfir svokallaða hitakrampa sem koma fyrir hjá börnum og venjulega eldast af.

Flog geta lýst sér á marga mismunandi vegu en sami einstaklingurinn fær þó venjulega aðeins eina tegund floga. Algengustu tegundir floga eru krampaflog, ráðvilluflog og störuflog.

Talið er að um 1 % mannkyns þjáist af flogaveiki og því má ætla að um 2500 Íslendingar séu með flogaveiki. Flogaveikir hér á landi og aðstandendur þeirra hafa stofnað með sér samtök, LAUF, sem er m.a. ætlað að standa vörð um hagsmuni flogaveikra.

Samtökin hafa staðið fyrir margvíslegri fræðslustarfsemi og verið ómetanlegur stuðningur við flogaveika og aðstandendur þeirra.

Flogaveikir hafa í tímans rás orðið fyrir marvíslegum fordómum í samfélaginu en með aukinni þekkingu og fræðslu hefur margt áunnist í þeim efnum.

Flogaveikin hefur mikil áhrif á líf fólks og skólaganga barna með flogaveiki litast oft af sjúkdómnum.

Sem betur fer verða batahorfur flogaveikra sífellt betri með bættri lyfjagjöf og stærstur hluti barna með flogaveiki aðlagast sjúkdómi sínum og tekur fullan þátt í daglegu lífi.

© 1997