Helga Valtýsdóttir
Down heilkenni


Viðtal við kennara barns með Down heilkenni

Í dag er mikil áhersla lögð á blöndun í almenna bekki, þá er fötluðum veittur stuðningur til að vera inni í almennri bekkjardeild. Einungis einn drengur með Down heilkenni er í almennum bekk í Reykjavík. Við skulum kalla hann Pétur og er hann níu ára.

Í viðtali við sérkennara Péturs kom fram að það þarf mikinn og langan undirbúning áður en skólaganga fatlaðs einstaklings getur byrjað. Einnig er það mjög mikilvægt að gott samstarf sé milli heimilis og skóla. Foreldrar taka þátt í að móta einstaklingsbundna námsskrá sem er endurskoðuð með reglulegu millibili.

Pétur þarf mikla aðstoð og það er sérkennari sem fylgir honum alveg. Hann fylgir samnemendum sínum í samfélagsfræði og kristinfræði en er með sérnámsefni í öðrum fögum. Hann er að læra að þekkja stafina og skrifa þá og einnig er verið að kenna honum tölugildin frá einum upp í fimm.

Sérkennari Péturs leggur mikið upp úr verklegri þjálfun og hefur það reynst honum vel að læra í gegnum matreiðslu, þar sem allt er sett upp á myndrænan hátt. Einnig er verið að kenna Pétri ýmis tákn sem hann getur notað með tali þar sem hann er með skertan málþroska.

Grunnskólinn er oft eini staðurinn þar sem fatlaðir eiga í eðlilegum og þroskandi samskiptum við ófötluð börn. Krakkarnir í bekknum hans Péturs hafa tekið honum vel og hann nýtur félagslegs stuðnings þeirra.

©1997