Hrafnhildur Kjartansdóttir
Asperger


Reynslusaga Helga

Helgi er átta ára gamall fallegur og prúður drengur. Hann er fæddur í Reykjavík og alinn upp hjá móður sinni. Faðir hans býr erlendis og hefur mjög lítið samband við drenginn.

Þegar Helgi var þriggja ára gamall fóru að vakna grunsemdir hjá móður hans um að ekki væri allt með felldu þar sem hann sýndi öðrum börnum nær engan áhuga og virtist vera félagslega einangraður í leikskólanum.

Helgi fór í greiningu þriggja ára gamall þar sem fram komu greinileg einkenni Asperger heilkennis. Eftir að niðurstöður greiningar lágu fyrir fékk hann sérstuðning á leikskólanum og um tíma hafði hann stuðningsfjölskyldu á vegum Svæðisstjórnar fatlaðra sem hann dvaldi hjá þrjá sólarhringa í mánuði.

Helgi er nú í 3.bekk í almennum grunnskóla. Honum gengur ágætlega í náminu. Hann varð læs löngu fyrir skólaaldur en hefur lært í skólanum að lesa með viðeigandi áherslum. Honum finnst erfitt að skrifa og teikna en stærðfræði liggur vel fyrir honum. Móður hans finnst að hann ætti að fá erfiðari stærðfræðiverkefni heldur hann fær nú í skólanum.

Helgi fær sérkennslu í íþróttum og í fyrravetur var hann í þjálfun hjá talkennara, en hann á erfitt með að bera fram r-hljóð og framburður er stundum óskýr. Nú í vetur fær hann framburðaræfingar til að æfa heima.

Utan skólans hefur Helgi sótt ýmis námskeið s.s. í leikrænni tjáningu og hann hefur æft fótbolta síðan í vor.

Helgi hefur öll megineinkenni Asperger heilkennis.

Hann samlagast illa jafnöldrum sínum og leitar ekki eftir félagsskap að fyrra bragði. Hann hafði mikinn áhuga á risaeðlum á yngri árum en nú eru það Andrés önd og félagar sem eiga hug hans allan. Einnig hefur hann áhuga á tölvum.

Þegar Helgi talar um áhugamál sín breytist talandinn hjá honum. Hann verður óskýr, ræskir sig í sífellu og erfitt getur verið að skilja hann.

Mál hans er formlegt og hann notar mörg orð sem eru óalgeng í talmáli. Hann sýnir fá svipbrigði og notar ekki handahreyfingar máli sínu til stuðnings. Hann tjáir ekki tilfinningar sínar með orðum. Hreyfingar hans eru fremur klunnalegar, en honum hefur farið mikið fram í hreyfifærni eftir að hann fór að æfa fótbolta og fékk sérkennslu í íþróttum.

Að sögn móður Helga hefur faðir hans ákveðin persónuleikaeinkenni sem líkjast einkennum Asperger heilkennis og föðurafi er þekktur fyrir að vera sérvitur og eiga erfitt með mannleg samskipti.

©1997