Hrafnhildur Kjartansdóttir
Asperger


Orsakir

Orsakir Asperger heilkennis eru óþekktar. Allar rannsóknir sem birtar hafa verið benda þó til þess að Asperger heilkenni sem og einhverfa byggist á erfðafræðilegum grunni.Sem dæmi má nefna að báðar truflanirnar finnast gjarnan í sömu fjölskyldum. M.a. hefur komið í ljós að meðal 51 einhverfs sem fæddir eru eftir 1970 hér á landi, er vitað um 4 systkini með Asperger heilkenni, þótt ekki hafi verið leitað að þeim sérstaklega.

Hvað varðar Asperger heilkenni þá má oft greina líkan persónuleika hjá öðru foreldrinu þótt hann sé ekki eins áberandi. Venjulega má finna í fjölskyldunni ættingja sem lýst er sem frekar tilfinningadaufum, einrænum og sérstæðum persónuleika. Tiltölulega mörg börn með Asperger heilkenni hafa mælanlegan heilaskaða eða skerta heilastarfsemi. Í könnun sem framkvæmd var í Gautaborg af Ehlers og Gilberg og birt 1993, kom í ljós að hjá 60 % barna með Asperger heilkenni fundust truflanir á heilastarfsemi eða litningagallar. Þetta má bera saman við 80 % tilfella hjá börnum með barnaeinhverfu á háu stigi og fá prósent tilfella hjá „venjulegu" fólki. Stór hluti einstaklinga með Asperger heilkenni hefur þó eðlilega greind eða greind yfir meðallagi.

Kenningar eru uppi um að orsakir Asperger heilkennis megi rekja til skaða eða truflunar í þeim hlutum hægra heilahvels sem stjórna ýmsum samskiptaþáttum. Einhverfa er hins vegar talin orsakast af skaða í samsvarandi hlutum beggja heilahvela. Talstarfsemi myndi þá eiga sér stað í vissum hlutum vinstra heilahvels og félagsleg samskipti í samsvarandi hluta hægra heilahvels. Sú spurning hefur komið upp hvort ekki sé einfaldlega um að ræða frávik á sama sjúkdómi. Um getur verið að ræða taugafrumur sem eru óvirkar eða skaddaðar. Báðir sjúkdómarnir hafa í för með sér félagslega skerðingu, en hjá einhverfum vantar venjulega einnig upp á málþroska og hjá einstaklingum með Asperger heilkenni vantar upp á almenna hreyfifærni. Ekki virðist vera hægt að finna samhengi milli félagslegra aðstæðna og Asperger heilkennis.

©1997