Sigríður Teitsdóttir
Asperger


Greiningarviðmið

Til eru nokkrar alþjóðlegar skilgreiningar á Asperger heilkenni, sem beitt er sem nokkurs konar kvörðum við greiningu heilkennisins, og eru þær líkar að innihaldi og orðfæri. Eftirfarandi eru greiningarviðmið bandarísku geðlæknasamtakanna samkvæmt DSM-IV.

  1. Eðlislæg vanhæfni í félagslegum samskiptum, sem felur í sér a.m.k. tvö af eftirfarandi atriðum:
    1. Vanhæfni í beitingu óyrtrar hegðunar eða tjáningar í félagslegum samskiptum, s.s. starandi augnaráð, svipbrigði, líkamsstellingar og líkamshreyfing í félagslegum samskiptum.
    2. Vanhæfni í að mynda eðlileg tengsl við jafnaldra.
    3. Skortur á ósjálfráðri þörf á taka þátt í gleði annarra, áhugamálum eða árangri (m.a. að benda á hluti, sem vekja áhuga annarra).
    4. Skortur á félagslegri eða tilfinningalegri gagnkvæmni.
  1. Eintrjáningsleg, staglkennd og formföst hegðunarmynstur, áhugasvið og athafnir, sem fela í sér a.m.k. eitt af eftirfarandi atriðum:
    1. Mikill og afbrigðilegur áhugi á einu eða fleirum sérkennilegum og afmörkuðum hugðarefnum.
    2. Ósveigjanleg fastheldni á sérstæðar, óhagnýtar venjur eða siði.
    3. Formfastar og endurteknar eða stöðugar hreyfingar (s.s. endurteknar handahreyfingar, fingursmellir, flóknar líkamshreyfingar).
    4. Brennandi áhugi á tilteknum hlutum.
  1. Framangreindar truflanir valdi klínískt mælanlegri vanhæfni í félagslegum samskiptum, starfi eða á öðrum mikilvægum athafnasviðum.
  2. Það er enginn klínískt mælanlegur seinþroski í máli (þ.e. notkun stakra orða við tveggja ára aldur, og orðasambönd í samskiptum við þriggja ára aldur).
  3. Á bernskuskeiði er enginn klínískt mælanleg seinkun á vitsmunaþroska eða sjálfsbjargargetu miðað við aldur, eða í hegðun (annarri en í félagslegum samskiptum), og eðlilegri forvitni á umhverfi.
  4. Greining uppfyllir ekki sértækar skilgreiningar um aðrar gagntækar persónuleikatruflanir eða geðklofa.

M.ö.o. framangreindir hegðunarþættir verða að vera til staðar í nægjanlega ríkum mæli, þannig að þeir valdi verulegum erfiðleikum á félagslegum sviðum og öðrum þáttum daglegs lífs. Að öðru leyti verður vitsmunalegur þroski, sjálfsbjargargeta, áhugi fyrir umhverfi og almennur málþroski að vera til staðar eftir því, sem aldur segir til um.

©1997