Hrafnhildur Kjartansdóttir
Asperger


Asperger heilkenni—nánari lýsing einkenna

Talað er um heilkenni þegar ákveðið samansafn einkenna er til staðar hjá einstaklingi. Asperger heilkenni er gagntæk truflun á þroska (PDD), sem flokkast með einhverfu. Megineinkenni þessarar truflunar koma í ljós snemma í bernsku og haldast síðan óbreytt, þótt aðlögun og stig raunverulegrar fötlunar séu breytileg. Truflunin greinist sjaldnast fyrr en við þriggja ára aldur eða síðar og virðast börnin þroskast eðlilega sem ungbörn. Þau eru gjarnan talin meðfærileg og sjálfum sér nóg. Þegar betur er að gáð er þó ýmislegt sem bendir snemma til þess að eitthvað sé að, t.d. hjala þau lítið, rétta ekki fram hendur til að láta taka sig upp og virðist oft standa á sama þótt foreldrar þeirra séu ekki nálægir. Einkennin eru mörg hin sömu og í einhverfu en taka til færri hegðunarþátta og eru sjaldan eins sterk. Ólíkt flestum einhverfum hafa einstaklingar með Asparger heilkenni í flestum tilfellum ekki alvarlega skertan mál- og vitsmunaþroska. Talið er að allt að 5-7 af hverjum 1000 séu með Asperger heilkenni og að ; það sé 5-10 sinnum algengara hjá drengjum en stúlkum.

Yfirleitt er talað um sex megineinkenni Asperger heilkennis:

1. Skortur á hæfni til gagnkvæmra félagslegra samskipta

Þetta er höfuðeinkenni Asperger heilkennis. Einstaklingana virðist skorta það sem kalla mætti félagslegt innsæi. Þeir eiga erfitt með að skilja samskipti sem ekki felast í orðum heldur svipbrigðum, augnaráði, bendingum og líkamsstöðu. Það vefst einnig fyrir þeim að setja sig í spor annarra og að gefa öðrum hlutdeild í eigin tilfinningum. Þeim gengur illa að eignast vini og sérstaða þeirra getur m.a. valdið því að þeir verði frekar en aðrir fyrir stríðni, einelti og öðru neikvæðu viðmóti.

2. Sérkennileg áhugamál og áráttukennd hegðun

Þetta er annað megineinkenni Asperger heilkennis. Algengast er að fá yfirþyrmandi þráhyggjukenndan áhuga á þröngt afmörkuðu sviði. Áhugamálin eru oft óvenjuleg og illa til þess fallin að deila þeim með öðrum. Áhugamálið getur breyst á nokkurra mánaða eða ára fresti, en eðli þess er hið sama og það verður gjarnan yfirdrifið. Dæmi um áhugamál eru risaeðlur, strætisvagnaáætlanir og flugvélategundir. Oft er um að ræða þörf fyrir að strjúka vissa fleti með höndum og fótum eða að notaðar eru síendurteknar hreyfingar s.s. að hreyfa stöðugt höfuð, ræskja sig eða láta braka í hnúum.

3. Tilbreytingalaus og oft klifandi talandi

Þessi talandi snýst gjarnan um áhugasviðin. Barnið vill oft þröngva séráhugamálinu upp á aðra og að umhverfið snúist um hið sérstaka áhugamál eða ávana.

4. Málfar er sérkennilegt

Málþroski er ekki undir meðallagi en málið er sérkennilegt. Það er oft gallalaust á yfirborðinu en formlegt. Málhrynjandi er afbrigðilegur og röddin tilbreytingarlaus, hvell og þreytandi. Almennt kemur málþroskinn seint, en þegar börn byrja að tala við 2-4 ára aldur, kemur hann oft mjög hratt. Á unga aldri er bergmálstal algengt, þar sem börnin endurtaka síðustu orðin í setningum og hafa jafnvel eftir heilu setningarnar án þess að skilja merkingu þeirra. Þau eiga oft mjög erfitt með að skilja óhlutbundið og myndrænt mál og misskilja ýmis orðatiltæki og taka þau bókstaflega.

5. Líkamstjáningu er ábótavant

Þessir einstaklingar sýna tilbreytingarlaus svipbrigði, t.d. að stara, brosa stöðugt og sýna litlar handa- eða líkamshreyfingar máli sínu til stuðnings. Takmarkað látbragð er notað á tilbreytingarlausan máta.

6. Klunnalegar hreyfingar með óvenjulegu göngulagi

Algengt er að fólk með Asperger heilkenni sé klunnalegt í hreyfingum þótt það sé ekki föst regla. Börnum veitist erfitt að læra hermileiki og íþróttir, standa gjarnan til hliðar við barnahópinn og horfa á án þess að taka þátt í félagsskapnum. Göngulag er oft á tíðum óvenjulegt. Í nýlega útkominni skýrslu um könnun á 23 börnum með Asperger heilkenni og jafnmörgum með einhverf einkenni kom í ljós að 18 af þessum 23 börnum með Asperger heilkenni höfðu lélegar fínhreyfingar en aðeins 5 af 23 einhverfum börnum.

©1997