VefverkefniTraustleiki dreifigreiningar

Í stuttu máli vísar traustleiki(robustness) dreifigreiningar til þess hve vel niðurstöður hennar gilda þegar forsendur standast ekki fyllilega. Mjög algengt er að forsendur dreifigreiningar bresti að einhverju leyti. Þess vegna er nauðsynlegt að vita hvaða áhrif slíkt getur haft á niðurstöður dreifigreiningar.

Lítil og meðalstór frávik frá forsendum dreifigreiningar virðast ekki hafa mikil áhrif á höfnunarmistök (alfa). Líkurnar á að hafna núlltilgátu ranglega, aukast því ekki þótt einhverjar af forsendunum standist ekki. Undantekning frá þessu er helst þegar misleitni er mikil og margir frávillingar til staðar. Þá má búast við að hættan á höfnunarmistökum geti aukist.

Þekkt er að afköst (power) dreifigreiningar geta stundum minnkað þegar forsendur standast ekki fyllilega. Með öðrum orðum, líkurnar á því að hafna núlltilgátu réttilega, geta minnkað, þegar forsendur dreifigreiningar bresta.

Vegna áðurnefndra áhrifa á afköst og höfnunarmistök er nauðsynlegt að huga að forsendum dreifigreiningar við skipulag rannsókna og þegar úrvinnsla gagna er undirbúin. Hægt er að skoða hvort forsendur um þýðið standist með því að skoða dreifingu gagna í myndritum. Ef myndrit sýna dreifingu sem víkur frá helstu forsendum er athugandi að umbreyta gögnunum með einfaldri reikningsaðgerð. Umbreytingar geta þó í sumum tilfellum valdið því að erfiðara verður að túlka niðurstöðurnar.

Í reynd er talað um að dreifigreining sé traust þegar lögun dreifingar er svipuð í öllum hólfum (ekki endilega normaldreifð), þegar munur á stærsta og minnsta staðalfráviki er ekki meiri en tvöfaldur (misleitnin ekki meiri en það) og þegar engir frávillingar eru í gögnunum. Þetta gildir hvort sem um er að ræða einhliða eða marghliða dreifigreiningu. Jafn fjöldi í hólfum skiptir ekki höfuðmáli nema þegar dreifing er misleit, þá verður dreifigreining traustari við það að hafa fjöldann jafnan (heimildum ber þó ekki saman um þetta).