DreifigreiningEinsleitni dreifingar

Einsleitni dreifingar (homogeneity of variance) er ein forsenda sem dreifigreining byggir á. Í henni felst að staðalfrávik þýðis (μ) er það sama í öllum hópum eða með öðrum orðum, að dreifing villunnar í þýði sé eins í öllum hópum sem verið er að bera saman. Þessi forsenda er einnig kölluð einsleitni villunnar (homoscedasticity).

Hægt er að kanna einsleitni dreifingar með því að skoða gögnin á myndrænan hátt, það er að birta myndrit yfir helstu eiginleika gagna. Breidd er einn eiginleiki gagna eða dreifingar og er hún metin með staðalfráviki. Breidd dreifingar er hægt að skoða á kassariti og segir hún þá til um hvort dreifing villunnar sé eins í öllum hópum. Kassarit sýnir því einsleitni dreifingar á einfaldan og fljótlegan hátt.

Í rannsóknum er oftast unnið með úrtök og eru þau notuð til að lýsa þýði. Í flestum rannsóknum er það svo að staðalfrávik úrtakshópa eru ólík og því má spyrja sig hvort forsendan um sameiginlegt staðalfrávik í þýði standist. Almennt séð er dreifigreining nokkuð traust gagnvart brotum á einsleitni dreifingar. Oft er miðað við að munur á staðalfrávikum hópanna sé ekki meiri en fjórfaldur. Of mikið frávik frá þessari forsendu gerir dreifigreininguna ótrausta.