Marktektarprófun Fisher og saga tilgátuprófunar

Sir R. Fisher vann við það upp úr aldamótunum 1900 að greina tölfræðileg gögn úr landbúnaði. Við athugun á ræktun komst hann að því að fjölmargar breytur höfðu áhrif sem ekki var hægt að stjórna með beinum hætti (veðurfar, jarðvegur o.fl.). Því hannaði hann aðferð sem ætlað var að greina þá þætti sem raunverulega skiptu máli frá minna mikilvægum þáttum. Með öðrum orðum reyndi Fisher að komast að því hvaða breytur hefðu marktæk áhrif. Upphaflegt hlutverk marktektarprófa var því að bæta ræktun í landbúnaði.

Stærðfræðingar að nafni Pearson og Neyman sem unnu við sama háskóla og Fisher (University College, London) gagnrýndu hugmyndir hans um marktektarprófun og reyndu að endurbæta þær. Þetta líkaði Fisher ekki og mótmælti þeim harðlega. Upphófst þó mikil og löng deila sem hafði meðal annars þær afleiðingar að Neyman missti vinnu sína við háskólann. Þetta varð líka til þess að marktektarprófun þróaðist í tvær áttir, annars vegar í þá átt sem Fisher studdi og hins vegar í þá átt sem stærðfræðingarnir kusu. Í dag er svo komið að flestir innan félagsvísinda notast við marktektarprófun sem er einhvers konar sambland af þessum tveimur stefnum sem deildu svo hart uppúr aldamsótum. Sennilega væru því hvorki Fisher né stærðfræðingarnir sem deildu við hann sáttir við stöðu mála í dag.