Marktektarprófun Eiginleikar tilgátuprófunar

Það er ekki hægt að sanna tilgátur. Því er sú leið yfirleitt farin að sett er upp önnur tilgáta sem er andstæð þeirri tilgátu sem áhugi er fyrir að prófa. Slík andstæð tilgáta er kölluð núlltilgáta. Núlltigátan er talinn sönn unns hægt er að hafna henni. Þar sem aðaltilgátan er á skjön við núlltilgátuna, þannig að báðar geta ekki verið sannar á sama tíma, þá túlkum við það sem stuðning við aðaltilgátunni að vera stætt á að hafna núlltilgátunni. Tilgátuprófun fer oftast fram með tölfræðilegum marktektarprófum.

Ýmsar tölfræðiaðferðir eru til þar sem marktekt er metinn. Eftirtaldir eiginleikar eru sameiginlegir öllum marktektarprófum:

Forsendur: Öll marktektarpróf byggja á ákveðnum forsendum. Þau gera til dæmis öll kröfu um ákveðnar tegundir gagna. Öll prófin gera kröfu um slembiúrtak og sum þeirra gera kröfu um dreifingu þýðisins, til dæmis normaldreifingu. Mörg próf eru þannig úr garði gerð að traustleiki þeirra eykst með aukinni úrtaksstærð.

Tilgátur: Öll marktektarpróf gera ráð fyrir núlltilgátu og aðaltilgátu. Reynt er að hafna núlltilgátunni til stuðnings aðaltilgátunni.

Tölugildi: Öll marktektarpróf reikna út úr gögnum eitthvert tölulegt gildi til prófunar á núlltilgátunni. Tölulegu gildin bera oft nafn marktektarprófsins t.d., t-gildi og f-gildi.

P-gildi: Þetta gildi segir til um líkur á því að að tölulegt gildi marktektarprófsins (t.d. t-gildi) væri niðurstaðan ef núlltilgátan er rétt. Þetta er reiknað út frá úrtaksdreifingu tölugildis marktektarprófsins. Því lægra sem P-gildi er því ólíklegri eru gögnin ef núlltilgátan er rétt. Þegar marktektarprófun fer fram er P-gildið yfirleitt borið saman við svokallað alfagildi. Alfagildið er ákveðið fyrirfram og segir til um við hvaða mörk við teljum P-gildið nægjanlegt til að hafna núlltilgátunni. Marktekt miðast því alltaf við fyrifram ákveðin mörk Algengt er að notast við alfagildi á borð við 0,05 eða 0,01.

Niðurstaða: Niðurstöður marktektarprófs eru aðeins tvennskonar. Annaðhvort er núlltilgátunni hafnað eða ekki. Hvort verður fyrir valinur fer eftir P-gildi marktektarprófsins og þeim marktektarmörkum (alfagildi) sem miða á við.