Staðgengilskóðun (dummy coding)Túlkun niðurstaðna

Túlkun niðurstaðna

Gefum okkur að ætlunin sé að athuga hvort munur sé á launum karlmanna eftir því hvaða stjórnmálaflokk þeir styðja. Við kóðum frumbreytuna stjórnmálaflokkur á eftirfarandi hátt.

Stjórnmálaflokkur X1 X2 X3
Sjálfstæðisflokkur 0 0 1
Framsóknarflokkur 0 1 0
Samfylking 1 0 0
Vinstri grænir 0 0 0

Eins og sést fá Vinstri grænir töluna 0 á öllum breytum sem þýðir að sá flokkur er samanburðarflokkurinn. Í X1 er Samfylkingin borin saman við Vinstri græna þar sem Samfylkingin er eini flokkurinn sem fær töluna 1 á X1. í X2 er Framsóknarflokkurinn borinn saman við Vinstri græna og í X3 er Sjálfstæðisflokkurinn borinn saman við Vinstri græna.

Þegar búið er að reikna niðurstöður með aðfallsgreiningu í SPSS kemur tafla í líkingu við þessa hér að neðan.

Coefficientsa

ModelÓstaðlaðir hallastuðlar
B
Std. ErrorStaðlaðir hallastuðlar
Beta
t Sig.
Fasti 121.851,2 4902,671 24,854 ,000
X1b 37.914,5 6933,423 ,275 5,468 ,000
X2c 94.871,3 6933,423 ,688 13,683 ,000
X3d 152.679,8 6933,423 1,108 22,021 ,000
a: Fylgibreyta: LAUN
b: Hallastuðull fyrir staðgengilsbreytu 1
c: Hallastuðull fyrir staðgengilsbreytu 2
d: Hallastuðull fyrir staðgengilsbreytu 3

Fastinn er útgangspunkturinn í túlkuninni því hann segir til um meðallaunin í samanburðarhópnum. Það er að segja að fastinn er meðallaunin fyrir stuðningsmenn Vinstri grænna í dæminu okkar. Þetta kemur til vegna þess að Vinstri grænir fá gildið 0 á öllum staðgengilsbreytunum. Hallastuðull fyrir X1 segir til um hversu mikið meðallaun stuðningsmanna Samfylkingar hækka samanborið við stuðningsmenn Vinstri grænna. Meðallaun þeirra eru

Y= a + X1 + X2 + X3

eða

Y= 121851,2 + 37914,5(1) + 94871,3(0) + 152679,8(0)

eða

Y= 121851,2 + 37914,5 = 159765,7 kr.

Á sama hátt segja hallastuðlar X2 og X3 til um hækkun meðallauna stuðningsmanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks miðað við meðallaun stuðningsmanna Vinstri grænna. Meðallaun þeirra eru eftirfarandi:

X2: Y= 121851,2 + 94871,3 =216722,5 kr.

X3: Y= 121851,2 + 152679,8 = 274531 kr.

Ef við hefðum haft tilgátu um launamun hefðum við skoðað t-gildin í aðfallsgreiningartöflunni hér að ofan til að athuga hvort marktækur munur væri á launum.

Eins og sést hér að ofan er sáraeinfalt að túlka hallastuðla fyrir staðgengilsbreytur og átta sig á hvað hver staðgengilsbreyta stendur fyrir. Hægt er að fá nákvæmari lýsingu á staðgengilskóðun og dæmi þar sem farið er nánar í kóðun, útreikninga og túlkun annarsstaðar á síðunni.