Staðgengilskóðun (dummy coding)Um staðgengilskóðun

Um staðgengilskóðun

Þegar nota á aðfallsgreiningu til að bera saman hópa til að sjá hvaða áhrif þeir hefur á fylgibreytu er gott að nota staðgengilskóðun. Ástæðan er sú að aðfallsgreining krefst þess að frumbreytan sé talnaleg breyta (þ.e. rað- jafnbila- eða hlutfallsbreyta) til að niðurstöður hafi einhverja merkingu. Félagsvísindi eru hins vegar oft að skoða nafnbreytur og því þarf að kóða gildin á frumbreytunum. Staðgengilskóðun er afar þægileg leið til kóðunar þar sem staðgengilsbreyturnar taka bara gildin 0 og 1 eftir því hvaða hópa er verið að bera saman og túlkun niðustaðna er frekar einföld. Í rannsóknarsniði er staðgengilsbreyta oft notuð til að greina milli mismunandi meðferðarhópa. Þær virka eins og slökkvari sem ýmist kveikir eða slekkur á ýmsum mæligildum í aðfallsjöfnunni og gera manni kleift að sjá betur mun milli hópa en ef hún er ekki notuð. Staðgengilsbreytur standa í raun fyrir þann samanburð sem verið er að athuga í hvert sinn. Ef bera á saman 3 hópa er fjöldi staðgengilsbreyta k-1. Það er vegna þess að ef um þrjú gildi á frumbreytu er að ræða þá ber maður hóp 1 saman við hóp 2 og hóp 1 saman við hóp 3. Hópur 1 er því eins konar samanburðarhópur sem hinir hóparnir eru bornir saman við. Þetta sést best á mynd eins og hér að neðan.

Staðgengilsbreytur

X1 X2
Hópur 1 0 0
Hópur 2 1 0
Hópur 3 0 1

Hópur 1 er hafður til samanburðar fær því gildin 0 á báðum staðgengilsbreytum. Staðgengilsbreyta 1 ber saman hóp 1 og 2 og staðgengilsbreyta 2 ber saman hóp 1 og 3 Oft er erfitt að ákveða hvaða hópur á að hafa 0 á öllum samanburðum. Stærsti hópurinn fær gjarnan gildin 0 á báðum breytum og þá eru hinir hóparnir bornir saman við hann en annars fer það eftir efni rannsóknarinnar. Almenna reglan er sú að nota þann hóp sem er á einhvern hátt frábrugin hinum. Jafna bestu línu fyrir staðgengilsbreyturnar hér að ofan er svona:

Y= a + b1X1 + b2X2 + e.

a = fasti

b1 = hallatala fyrir staðgengilsbr.1

b2 = hallatala fyrir staðgengilsbr.2

e = villa

Hallatala b1 er í raun hallatalan fyrir hóp 2 þar sem hann fær gildið 1 á X1 en 0 á X2. eins er hallatala b2 hallatalan fyrir hóp 3 þar sem hann fær gildið 0 á X1 og 1 á X2. „Hallatalan“ fyrir hóp 1 er jöfn fastanum þar sem besta spágildi fyrir hóp 1 er

Y´= a + b1X1 + b2X2, en þar sem X1 og X2 eru 0 þá verður jafnan

Y´= a + b1(0) + b2(0)

Y´= a

Eftir kóðun er hægt að reikna út með aðfallsgreiningu og túlka niðurstöður á hefðbundin hátt.

Þegar staðgengliskóðun er notuð er gott að athuga fyrst hvort heildaráhrif eru martæk, t.d. með dreifigreiningu. Misjafnt er hversu mikla áherslu rannsóknarmenn leggja á marktæk heildaráhrif en mörgum finnst það vera merki um slæleg vinnubrögð að segja frá martækum áhrifum einnar staðgengilsbreytu þegar heildarsniðið er ekki marktækt. Aftur á móti má segja að marktæk áhrif einnar staðgengilsbreytu séu áhugaverð út af fyrir sig, þó heildarlíkanið sé ekki marktækt.